Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

Á hárhvössu nú-i

Höfundur: Sigvaldi Hjálmarsson

Úr fræðslubálki, apríl 1982.

SÁ ÞÁTTUR andlegrar iðkunar sem mestu varðar en einnig er sá sem minnst er um rætt, raunar minnst hægt um að tala, felst í samfelldri afstöðu andartak framaf andartaki.

Í sem allra fæstum orðum má segja að sú afstaða eigi að vera fólgin í að lifa í nú-inu, á hárhvössu nú-i. Í formlegri hugleiðingu er vinnandi vegur að lifa í nú-i, en við störf og í argaþrasi dagsins reynist það þrautin þyngri.

Þó er sannast mála að mikill nýtanlegur tími fer forgörðum hjá okkur flestum eingöngu vegna hirðuleysis.

Kappsfullur áhugamaður notar hverja stund. En ef vel á að takast þarf kunnáttu til að nota hverja stund.

Eftirfarandi ábendingar ættu að hjálpa:

1. Mundu að anda ætíð hægar frá en að — ef þess er nokkur kostur að hafa stjórn á önduninni.

2. Virtu fyrir þér hugsanir og skynjanir sem eðlilega koma meðan þú talar og vinnur, helst sem oftast þegar færi gefst.

3. Talaðu aðeins það sem þörf er að tala, vertu ella þögull.

4. Taktu þér ekki fyrir hendur að vinna annað en það sem nauðsynlegt getur talist. Sama máli gegnir um óþarft amstur og óþarfa tal — hvortveggja truflar sálarástandið til muna.

5. Veldu ekki úr. Reyndu að láta þér hvorki líka vel né illa það sem við ber. Allt líður hvort eð er hjá.

6. Finndu kyrrð. Kyrrð er ævinlega á bakvið allt.

7. Ástundaðu eftir föngum hið sexfalda dagfar esóteristans sem fólgið er í: Að vera alltaf hrein athygli. Að muna ætíð guðdóminn. Að viðhalda hugsanafríu ástandi. Að gefa allt sem þú gerir. Að leggja rækt við þá tilfinningu fyrir líkamanum að hann sé fremur kraftsvið en efni. Að elska allt og alla.

Síðan má benda á tvær hugleiðingar-aðfeðir sem upplagt er að nota allan daginn eða þegar færi gefst:

So-Ham: í takt við öndunina. So á aðöndun, Ham á útöndun. Gerðu hlé eftir útöndun, áðuren aðöndun hefst, eins lengi og þægilegt þykir — enda þá alltaf hugsanafrítt ástand.

Hver er ég? eða: Hverjum birtist þetta? — einsog Ramana Maharsi kenndi. Reyndu að láta spurninguna standa: Orðlaus undrun er aðalatriði, því hugurinn er alltaf hljóður og vakandi þegar þú ert lostinn undrun.

Þú notar eitthvað úr þessu eftir bestu getu — þótt ekki sé nema eitt þá er það til bóta. En ekki er hægt að búast við að þú getir viðhaldið hinu sexfalda dagfari í heild fyrren eftir langa þjálfun og mikla reynslu.

Næsta Á háu nótunum
Efnisyfirlit