Greinasafn Lífspekifélagsins
< Til baka

04 – METNAÐURINN

Höfundur: Jón L. Arnalds

4.0 AÐ SKARA FRAM ÚR.

Meðal þeirra úrræða, sem treysta egoið í sessi og lyfta því upp, sérstaklega yfir aðra, er metnaðurinn eða leið hins ytri frama augljósust. Hann snýr mest út á við af öllum þeim þáttum, sem hér er fjallað um. Þjóðfélagið í heild er mettað af þörfinni fyrir að skara fram úr á öllum sviðum. Þessari þörf er þó aðallega fullnægt á þeim sviðum, þar sem hún er framkvæmanleg fyrir hvern einstakling á hverjum tíma. Þess vegna breytist viðfang metnaðarins oft hjá sama einstakling.

Metnaðurinn byrjar kannski á námsárunum í sambandi við einkunnir, síðar að afla fjár eða ná frama í stjórnmálum o. s. frv. Sami maðurinn getur á vissu tímabili ævi sinnar haft áhuga á að verða íþróttahetja, en síðar gengist upp í að skara fram úr í dyggðum og gerast mesti dýrlingurinn. Hann telur þá gjarnan að hann hafi misst metnað sinn. Í mesta lagi ályktar hann sem svo, að íþróttaframi hafi ekki verið það, sem hann vildi í raun. Hann áttar sig ekki á að metnaðurinn hefur aðeins breytt um mynd. Í raun skiptir ekki máli, hvers efnis metnaðurinn er, því það sem gildir er að skara fram úr eða vera öðrum fremri. Ef við skiljum ekki þetta grunnviðhorf, botnum við ekkert í breytingunum.

Þótt viðfangsefni metnaðarins skipti ekki meginmáli, kemst ég ekki hjá því í þessum þætti að ræða hin ýmsu þeirra. Hefur því víða verið gerð skil. Nauðsynlegt að ræða algengustu myndir, sem metnaðurinn tekur á sig, til að fá betri skilning á eðli hans, auk þess sem menn átta sig frekar honum, ef ljósi er varpað á hin ýmsu metnaðarefni.

Sálfræðingurinn Alfred Adler, taldi baráttuna fyrir yfirburðum vera þungamiðju sálarlífsins. Skoðanir hans eru að vísu full mikil einföldun. Þó segja megi honum til hróss að hann hafi bent á mikilvægi þessarar baráttu og þær myndir, sem hún fær á sig. Fullmikið er að segja að baráttan fyrir yfirburðum sé megin tilhneiging mannlegs eðlis. Gegnir svipuðu um það og fullyrðingu Nietzsche, sem taldi að viljinn til að öðlast völd gegndi því hlutverki. Adler taldi minnimáttarkennd vera orsök þess að menn sæktust eftir völdum, virðingu og eignum.

Eins og áður sagði, er einkenni metnaðarins svipað, hvort sem sóst er eftir að verða leiðtogi í þjóðfélaginu, skara fram úr sem tónlistartúlkandi, hæfasti rithöfundurinn eða best klædda konan. Eðli framans má þó greina í annað hvort sókn eftir valdi, þ.e. sóst er eftir völdum, áhrifum og stjórnun eða sókn eftir virðingu, þ.e. sóst er eftir orðstír, hylli, athygli, aðdáun og vinsældum.

Metnaðurinn hefur raunsætt yfirbragð og augljós er sú orka, sem menn leggja í hann. Hann virðist einnig raunsær að því leyti, að með heppni virðast menn öðlast, það sem þeir eru að sækjast eftir. Oft er það því ekki fyrr en eftir að náð hefur verið þeim frama, auði eða völdum o. s. frv., sem sóst er eftir, að menn sjái tilgangsleysi og innhaldsleysi viðleitninnar. Þeim verður ljóst, að hún er eftirsókn eftir vindi. Hugræn kyrrð, lífsgleði og öryggi vaxa ekki við þetta. Vandinn, sem metnaðinum var ætlað að leysa, er meiri en áður. Þetta gildir um hvern þann sem sækist eftir frægð, frama og upphefð. Metnaðurinn leiðir aldrei til neinnar lausnar og er óraunsær, þegar upp er staðið. Oftast er örvæntingin dýpst hjá þeim, sem ákafast hafa sóst eftir fé og frama, og öðlast þessi lífsins “gæði” í ríkum mæli.

Við lifum í samkeppnisþjóðfélagi og eigi má ætla að ég sé á móti samkeppni. Hún á sér sitt eðlilega hlutverk. En hana má ekki tengja lífshamingju og lífsviðhorfi manna, þannig að inntak lífstefnunnar verði að vera fremri og betri. Margir telja samkeppni alltaf óeðlilega. Ef við lítum á náttúruna, þá sjáum við þó að samkeppnin er þáttur hennar. Hér er á ferðinni ein þverstæða lífins, sem við sjáum ekki í gegnum fyrr en við höfum nálgast Sjálf okkar og losnum við egóið. Meðan samkeppnin er tengd egóinu, er hún óeðlileg og óheilbrigð.

Mér hefur alltaf fundist skondið að heyra stjórnmálamenn tala um flokksstefnu sem lífsstefnu sína, en þetta heyrir maður iðulega. Manni finnst jafnvel stundum, sem þeir eigi við efnahagsstefnu og peningamál. Og þarna gægist fram eitt atriði metnaðarins, sem ekki er svo gott að sjá í fyrstu, að marka stefnu. Egóið þarf stefnu. Það þarf að styrkja sig út á við, stækka og vaxa. Því hafa margir séð og gefur auga leið, að önnur stefna og önnur gildi, hljóta að vera vænlegri til þroska, heldur en að keppa við aðra og skara fram úr þeim. Hin eina sanna lífsstefna er því auðvitað sjálfsþroski. Sú lífsstefna er frekar fólgin í því að losna við stefnur en búa þær til. Til þess að losna við þær, þurfum við að vita í hverju þær eru einkum fólgnar. Því er rétt að víkja nánar að sókn eftir völdum, virðingu og eignum.

4.1 VALD, VIRÐING OG EIGNIR.

Ólíkir persónuleikar sækjast eftir völdum og virðingu og segja má að um ólíka þætti sé að ræða, þótt þeir hafi einnig ýmislegt sameiginlegt. Með því að sækjast eftir völdum, virðingu og eignum tryggjum við öryggi okkar og sjálfsmat. Við losum með því tengsl við aðra að vissu marki og styrkjum stöðu okkar. Að finna til valds síns getur verið eðlilegt, ef ljós er líkamlegur eða andlegur styrkur, þroski eða viska. Menn berjast einnig fyrir völdum af eðlilegum ástæðum, m.a. af pólitískum ástæðum. En sú valdabarátta, sem stafar að kvíða, hatri eða öryggisleysi er þó almennari. Vegurinn til valda byggist oftast ekki á styrkleika heldur veikleika. Þeir, sem sækjast eftir völdum, virðingu eða eignum í okkar þjóðfélagi, gera það flestir til að efla öryggistilfinningu sína og sjálfsálit.

Hér verður ekki rætt um ástæðuna fyrir þessu öryggisleysi. Annars staðar er fjallað um þá þróun, sem leiðir til öryggisleysis. Ein ástæðan er skortur á stuðningi, samúð og hjálp í æsku, þegar verið er að byggja upp hið ímyndaða egó. Bæld reiði og kvíði vegna þvingana, hjálparleysis og lítillækkunar, sem óhjákvæmileg er í heimi, þar sem ég er ég og þú ert þú, auk margra annarra sambúðarþátta í æsku, á hér mikla sök. Sjálfsímyndin og þau markmið á fullorðinsárum að þurfa að lyfta sér upp yfir aðra til að drukkna ekki, vegna ímyndaðrar hættu og fjandskaps frá umhverfi, er þó meginorsökin. Rétt er að líta á hvern þessara þátta, fyrir sig; völd, virðingu og eignir.

Leitin eftir valdi þjónar einkum þeim tilgangi að vernda sig og tryggja gegn hjálparleysi og getuleysi. Þar er um að ræða skort á sjálfstrausti. Við erum treg til að viðurkenna hjálparleysi og veikleika í fari okkar. En sumir ganga svo langt, að geta ekki þegið leiðsögn, ráð eða hjálp. Þeir þola ekki að vera háðir öðrum á nokkurn hátt og enn síður sammála þeim. Þetta hefur venjulega þróast smátt og smátt. Því meiri sem veikleikinn verður, er brýnni ástæða til að breiða yfir hann. Leitin eftir valdi þjónar einnig þeim tilgangi að vernda sig gegn því að vera álitinn lítilfjörlegur eða þýðingarlítill. Oft er þá búin til sjálfsímynd, sem hlaðin er styrkleika og reynt er að telja sér trú um að hægt sé að ná tökum á aðstæðum, hversu erfiðar sem þær eru. Þessi sjálfsímynd tengist þá eigin stolti þannig, að allur veikleiki er þá hættulegur og vansæmd. Menn eru þá oft flokkaðir í sterka menn og veika og dáðst er að þeim fyrrnefndu, en hinir lítilsvirtir. Viðkomandi fyrirlítur þá, sem reyna að geðjast honum og einnig þá, sem ekki hafa hemil á tilfinningum sínum. Stundum getur þetta orðið dálítið hjákátlegt, t.d. ef kona getur ekki elskað mann með veikleika, vegna þess að hún fyrirlítur veikleika og heldur ekki “sterkan” mann af því hún þarf alltaf að ráða.

Hvers konar valdi sem sóst er eftir byggist á því, hvers konar skort á valdi viðkomandi óttast eða fyrirlítur mest. Sumir sækjast t.d. eftir valdi yfir sér og öðrum. Slík árátta er þá oft í því dulargervi, að baráttan sé háð í nafni málstaðar, helguð skyldu eða vegna ábyrgðar, en þá er ætlast til hlýðni af öðrum. Aðrir vilja ná valdi á öðrum með framsýni og skynsemi. Þeir hafa þá trú, að skynsemi og rökhyggja leysi öll mál. Tilfinningum er þá afneitað, en mikið dálæti haft á framsýni, forspá og skipulagsgáfu og að hafa alltaf rétt fyrir sér. Rökhugsun og skipulag er þá taldar æðstu dyggðir. Eitt valdformið er að samþykkja aldrei neitt eða þiggja ráð. Slíku fólki verður jafnan að telja trú um, að það eigi sjálft hina upphaflegu hugmynd eða að það hafi valið milli ákveðinna kosta.

Ef við teljum okkur lítilsvirði, lítilfjörleg eða þýðingarlítil, bætum við það gjarnan upp með leit að virðingu. Hlutverk virðingarinnar er þá gjarnan að vernda gegn slíkri minnimáttarkennd. Við viljum þá gjarnan vekja hrifningu, hafa áhrif á umhverfið og vera virt eða viðurkennd. Konur t.d. með fegurð sinni og karlmenn með gáfum sínum, eru klassískt dæmi um slíkt. Afrek, örlæti, að vera háttsettur, mikilvægur, frægur eða hafa aflað sér orðstírs eru mjög algeng markmið, þegar sóst er eftir virðingu. Að vera í áliti skiptir þá meginmáli og að umgangast fólk, sem er almennt hátt skrifað. Að vera ríkur, eiga eignir, titla eða orður kemur einnig að gagni í þessu sambandi. Að vera gáfaður, helst snillingur eða fallegur og vel vaxinn er að sjálfsögðu einnig töluvert trompspil. Litið er á það sem lítillækkun, ef ekki er sýnd virðing, það veldur reiði. Eins og valdið snýr að sjálfstrausti, þá snýr virðingin að sjálfsáliti. Sjálfstraust og sjálfsálit eru þó samofnir þættir, þegar betur er að gáð. Með virðingu annarra, telja menn sig reisa við eigin sjálfsvirðingu. Þó getur þessi leit að virðingu leitt til þarfar fyrir að vera óskeikull og dásamlegur í eigin augum.

Peninga og eignir má jafnan nota til að verjast gegn tilfinningu getuleysis og minnimáttarkennd, þ.e. bæði til að öðlast völd og virðingu. Að jafnaði dregur verulega úr eignasýki manna þegar þeir átta sig á þeim þáttum sem að baki leynast. Sérstakur ótti og kvíði býr þó í mörgum að því er snýr að peningum og eignum. Ótti við að verða uppiskroppa, slyppur og snauður, fátækur og bjargarlaus og þar með háður öðrum. Þessi ótti getur verið svo magnaður, að menn þræla sér út og nýta hvern möguleika til að verða sér úti um fé. Mönnum er þá fyrirmunað að nota féð sér til ánægju. Eignasýkin birtist ekki einungis gagnvart efnislegum gæðum, heldur geta menn eignað sér annað fólk sem hluta af sér, eða sína eigin eign. Þeir telja sig þá minni eða meiri menn í hlutfalli við slíka eign, t.d. stærð fjölskyldu, fjölda starfsfólks o. s. frv. Sama á við um aðrar eignir sem ekki snerta fjárhag. Maður finnur sig þá umfangsmeiri og verulegri og eignin er notuð til að koma á innra jafnvægi.

4.2 HEFNDARSIGUR.

Þessir þrír þættir, sem hér hefur verið lýst, þ.e. völd, virðing og eignasýki, myndast, er við viljum treysta öryggi okkar. En þessir þættir þjóna öðrum tilgangi, þeir eru einnig útrás fyrir reiði og fjandskap, sérstaklega ef hann er bældur og dulbúinn. Er það nátengt stoltinu, einkum ef það særist. Vikið verður að stoltinu og viðhorfum tengt því í næsta þætti. Valdasýki breytist þá í tilhneigingu til yfirdrottnunar, virðingarþörf breytist í tilhneigingu til að lítillækka aðra og eignasýki breytist í þörf fyrir að hagnýta sér aðra og fá eitthvað út úr þeim eða ná einhverju frá þeim. Er rétt að víkja að hverjum þætti fyrir sig.

Drottnunartilhneigingar þeirra, sem sækjast eftir völdum, þurfa ekki að vera augljósar. Þær geta verið dulbúnar og verkað manneskjulega, t.d. með ráðleggingum, og að þurfa að stjórna högum annarra eða hafa á hendi leiðsögn. Hins vegar má alltaf sjá virðingarleysið, sem öðrum er sýnt, virðingarleysið fyrir þeim sem einstaklingum og tilfinningum þeirra. Aðrir finna til fjandskaparins þótt viðkomandi finni hann ekki sjálfur. Viðkomandi finnur til yfirburða sinna og bregst reiður við, ef ekki er orðið við óskum hans og vilja. Stundum er reiðin bæld svo rækilega, að viðkomandi verður hennar ekki beinlínis var. Samvinna og samskipti á jafnréttisgrundvelli er útilokuð. Markmiðið er að undiroka aðra og spila á tilfinningar þeirra, nota þá fyrir eigin markmið, gera kröfur á þá, leika á þá og slá þeim við. Þar sem svo mikill fjandskapur felst í drottnunargirninni, er hún oft rækilega bæld. Kemur það fram í hömlum, t.d. í að gefa fyrirskipanir, vera ákveðinn, hafa hvassar skoðanir, taka á sig forystu eða ábyrgð. Viðkomandi finnst hann þá óaðlaðandi og afbrýðisemi er bæld.

Þegar um er að ræða sókn eftir virðingu, lýsir fjandskapurinn sér sem þörf fyrir að lítillækka aðra. Oftast má rekja þetta til lítillækkunar í æsku. Þessar tilhneigingar eru venjulega bældar. Þar sem viðkomandi veit hversu mikið hann særist sjálfur er hann verður fyrir lítillækkun, óttast hann sömu viðbrögð hjá öðrum. Tilhneigingarnar koma þá fram óafvitað, t.d. að reyna á þolrif þeirra, gera þá háða sér eða koma þeim í vandræði. Slíkar tilhneigingar eru stundum faldar á bak við aðdáunarþörf. Aðdáunin felur lítillækkunartilhneigingar og tvíeflist við það að fela þær tilhneigingar. Einnig er algengt að sveiflast sé á milli aðdáunar og dýrkunar á ákveðnum persónum annars vegar og fyrirlitningar á þeim hins vegar. Sá sem vill lítillækka aðra er fljótur að sjá galla þeirra og benda á þá. Hann veit fyrir hverju þeir eru viðkvæmir og hvernig má særa þá. Hann notfærir sér þetta í sambandi við lítillækkandi gagnrýni, en þykist vera heiðarlegur og jafnvel hjálpsamur. Slík lítillækkunarþörf kemur gjarnan fram í grunsemdum gagnvart öðrum eða ástríðu í að finna galla annarra. Í stuttu máli má segja að lítillækkunarþörfin gangi út á að gera aðra að athlægi, skapa hjá þeim sektarkennd eða minnimáttarkennd, gera þá háða sér og undirgefna og hrósa sigri yfir misgjörðarmanni sínum.

Þegar tilhneigingar til lítillækkunar eru bældar, þá koma fram hömlur og viðkomandi reynir allt hvað hann getur til að koma í veg fyrir að lítillækka aðra. Þá er honum ómögulegt að gagnrýna, synja boði, segja upp starfsmanni o. s. frv., þannig að hann verkar yfirþyrmandi kurteis og tillitssamur. Hann sýnir takmarkalausan skilning, afsakar sig og ásakar, en segir eitthvað notalegt og fallegt til að hughreysta aðra og auka á sjálfstraust þeirra. Slíkt fals er ekki óalgengt.

Þegar um er að ræða eignasýki, tekur fjandskapurinn venjulega á sig það form að taka eitthvað frá öðrum. Markmiðið er að hafa hag af öðrum með einhverju móti. Mat á öðrum miðast við hagnaðarvon. Hagnaðurinn getur verið peningar, hugmyndir, kynlíf eða tilfinningar. Þessar tilhneigingar eru þrungnar tilfinningum, þ.e. þær verða ástríða. Oft fylgja ríkar kröfur um hvers konar gæði, án þess að þakklæti sé á nokkurn hátt sýnt. Svo dæmi sé tekið, þá er Hedda Gabler Íbsens nokkurs konar fyrirmynd eða kennslubókardæmi í þessum viðhorfum. Oft fylgir þessu hagnaðarviðhorfi mikil öfund og skortur á hæfileikanum til að njóta þess, sem maður á og hefur. Þessi viðhorf hafa að sjálfsögðu mikil áhrif í samskiptum manna. Viðkomandi getur verið frjáls og eðlilegur gagnvart þeim, sem hann ætlar ekkert að hafa út úr. Sjái hann á hinn bóginn, að hann getur haft út úr öðrum upplýsingar, meðmæli, greiða, ást eða kynferðisleg not, þá verður hann mjög meðvitaður um sig sjálfan, vandræðalegur, feiminn og þvingaður. Þótt slíkt fólk afli venjulega mikils fjár, getur það oft verið hikandi í sambandi við fjárkröfur, t.d. launakröfur og sýnst örlátara en það er í raun. Þetta getur gengið svo langt, að viðkomandi stendur vart á eigin fótum, heldur lifir meira eða minna á öðrum. Ein hlið á þessu máli er tilhneiging til að halda að verið sé að hafa af sér fé eða hagnýta sig. Mikil tortryggni er þá gagnvart öllum og óeðlilega mikil reiði sýnd, ef í ljós kemur að maður hefur verið gabbaður fjárhagslega.

Þessi hagnaðarþörf verður enn ljósari, ef menn átta sig á, að venjulega býr með þeim þörf fyrir að gera aðra vonsvikna. Gengur það jafnvel svo langt, að til er fólk sem vill eyða gleði annarra, stríða þeim og angra með ýmsu móti. Óskir og langanir annarra eru þá hundsaðar og vonir þeirra hafðar að engu. Á hinn bóginn snýst málið við, ef þessar tilhneigingar eru bældar. Þá ganga menn langt í því að koma í veg fyrir, að aðrir verði fyrir vonbrigðum, þeir hætta ekki á að hafa uppi óskir eða gera uppreisn gegn misneytingu. Vonir og kröfur annarra verða þá rétthærri og mikilvægari en þeirra eigin. Menn láta aðra hafa hag af sér fremur en að gæta eigin hagsmuna. Slíkur maður er raunverulega milli heims og helju, þar sem hann óttast eigin tilhneigingar til að hagnýta aðra, jafnframt því sem hann fyrirlítur sjálfan sig fyrir óákveðni sína og hlédrægni, sem hann álítur kjarkleysi.

Mönnum kann að finnast þessar lýsingar nokkuð hrikalegar, en veruleikinn er oft ótrúlegri en skáldskapur. Sá hefndarsigur, sem ég hefi hér lýst er nátengdur og samofinn metnaðinum, en fleira kemur til, ekki síst stoltið. Um það verður fjallað í næsta þætti. Sú lýsing á þeim myndum, sem hefndarsigurinn tekur helst á sig og hér hefur verið tekin fyrir, á þó best heima hér í þessu samhengi.

4.3 SAMKEPPNIN.

Of grunnfærið er að einblína á þau form, sem eftirsókn eftir valdi, virðingu eða fjármunum tekur á sig í þjóðfélagi okkar. Það breytist með breyttum tímum og þjóðfélagsformi. Kjarni málsins er áráttan og hvernig hún gegnsýrir allar athafnir okkar, ekki aðeins atvinnu, heldur og öll þjóðfélagssamskipti, leik og fjölskyldulíf. Rétt er að ræða þá samkeppni, sem um er að ræða og fram kemur vegna þessara tilhneiginga. Um er að ræða grundvallarviðhorf, sem líta verður á frekar en afleiðingarnar eða einkennin, sem birtast í stöðu manna og aðstöðu, svo og þjóðfélagsformum.

Þrjú atriði skera einkum í augu. Í fyrst lagi berum við okkur saman við aðra, jafnvel um atriði og við aðstæður, sem ekkert hafa með samkeppni að gera. Við berum okkur saman við fólk, sem ekki stefnir að sömu markmiðum og við, né eru á nokkurn hátt í samkeppni við okkur. Alltaf er verið að athuga hver er betur gefinn, vinsælli, meira aðlaðandi o. s. frv. Allir vilja vera fremstir og bestir á öllum sviðum. Um leið missum við áhugann á sjálfu málefninu eða efni máls. Það skiptir ekki lengur máli, hvað við erum að gera, heldur árangurinn, áhrifin eða álitið, sem fæst. Hjá sumum er þessi samanburður svo ósjálfráður, að þeir verða ekki varir við hann eða hversu mikilvægur hann er þeim.

Í öðru lagi felst metnaðurinn ekki aðeins í því að ætla sér meira en aðrir, heldur einnig í því að vilja vera einstæður eða óvenjulegur. Ef metnaðurinn er bældur, kemur þetta fram í draumórum, hugarburði eða óskhyggju um sérstakar gáfur, fegurð, siðferðilega yfirburði eða afrek og frama af einhverju tagi. Þetta er svo algengt að það fer fram hjá flestum og þeir veita slíkum hugsunum ekki athygli. Verði menn ekki varir við metnaðinn sjálfan, láta vonbrigðin sjaldnast á sér standa. Ef menn standast ekki próf, ná ekki árangri eða mistekst, þótt ekki sé nema í smámunum, verður slíkt oft stórmál fyrir þá.

Í þriðja lagi er mikill fjandskapur fólginn í samkeppninni og metnaðinum. Þetta felur í sér eftirfarandi viðhorf: enginn nema ég skal vera gáfaður, fallegur, ná árangri o. s. frv. Sigur eins er ósigur annars. Mönnum finnst þetta jafnvel eðlilegt. Sumum er jafnvel mikilvægara að sjá aðra sigraða en að sigra sjálfir. Framkoma þeirra er alla jafna eins og það sé mikilvægara að sigra aðra en ná sjálfir árangri. Auðvitað er eiginn árangur mikilvægur, en þar sem margir eru haldnir miklum hömlum gagnvart velgengni, þá er oft sú eina leið opin að finnast hafa yfirburði með því að rífa aðra niður, draga þá niður á eigið plan eða frekar niður fyrir það. Samkeppnisaðilanum er þá oft haldið niðri eða hann skaðaður. Um aðra eru höfð lítilsvirðandi ummæli, gert lítið úr þeim, þeir eru rægðir eða óorði er komið á þá. Stundum skaðar þetta jafnvel eigin hagsmuni. En viðhorfið er hlaðið tilfinningum og þar sem aðeins einn kemst áfram að áliti viðkomandi, skal það vera hann sjálfur.

Mikill kvíði fylgir samkeppninni, einkum af því að menn telja að aðrir séu jafn viðkvæmir og sárir gagnvart ósigri og þeir. Þess vegna er allt gert til að réttlæta þessar tilhneigingar og bæla þær. Þá snýst þetta oft við, eins og áður var lýst og menn geta þá ekki haft skoðanir, tekið afstöðu eða ákvarðanir. Menn einblína á neikvæðar hliðar annarra eða galla þeirra. Hefndarsigurinn gægist fram með óbeinum hætti.

Mikill metnaður og samkeppni, hafa sín áhrif á samskipti kynjanna. Í þeim samskiptum, sérstaklega hjónabandinu, gerir þessi metnaður meiri skaða en annars. Að sjálfsögðu kemur þetta fram í kynlífi sem öðru. Allar þessar tilhneigingar koma hvað skýrast fram í kynlífinu. Þegar menn eru að tala um óeðli í kynlífi, þá er eins og þeir haldi að kynlíf sé eitthvert einangrað svið, sem geti verið óeðlilegt á sama tíma og önnur séu eðlileg. Þetta er rangt. Kynlífið er aðeins einn þáttur í samskiptum fólks og þessi þáttur litast nákvæmlega af sömu tilhneigingum og aðrir þættir. Það sem gerir muninn er aðeins, að í kynlífi verða þessar tilhneigingar meira áberandi. Sadismi og masochismi o. s. frv. eru aðeins einkenni þeirrar grundvallaróheilbrigði, sem ríkir á öllum sviðum hjá viðkomandi manni. Kjarni málsins í þessu er grundvallarviðhorfið ekki einkennin.

Það er of langt mál að rekja hér einstök viðhorf milli kynja og í hjónabandi. Ég held að fáa gruni, hve hjónabönd mótast mikið af þeim árekstrum, sem myndast við samkeppnisviðhorf kynjanna. Hefur um það verið ritað mikið mál. Ég vil þó nefna smádæmi, án þess að það sé mikilvægara en önnur. Það er dæmigert í okkar þjóðfélagi, að karlmenn öðlast meiri frama og völd en konur. Margar konur dást að eiginmönnum sínum fyrir afrekin og taka á vissan hátt þátt í afrekunum gegnum þá. Þetta getur veitt konunum vissa ánægju, svo lengi sem velgengnin varir. Kona getur því, vegna eigin metnaðar, haft ást á eiginmanninum vegna velgengni hans, en jafnframt hatað hann vegna þess. Þetta getur leitt til þess, að hún styðji hann og grafi undan honum á víxl eða taki upp aðra stefnuna einhliða. Sumar konur bæla svo metnaðinn, að hann snýst upp í aðdáun og þær bókstaflega fórna sér fyrir eiginmanninn eða frama hans. Þetta getur allt gengið þolanlega, en fjandskapur og árekstrar eru samt óhjákvæmilegir. Hjónabandið verður ekki sá góði félagsskapur, sem það getur verið, heldur uppspretta alls konar vandræða. Konur geta bókstaflega gert sig að engu í svona sambandi og það er áreiðanlega ekki það, sem karlmaðurinn sækist eftir. Einnig getur þetta verið á hinn veginn. Sumir karlmenn þola ekki konur, sem eru þeim ofjarlar í neinu, þeir verða að líta niður á þær. Metnaður þeirra og stolt veldur þessu. Undir niðri er þetta sjálfsfyrirlitning sem varpað er út á konuna. Verður í síðari þætti vikið að sjálfsásökunum og sjálfsfyrirlitningu. Þegar þessi viðhorf ráða í makavali, er ekki von á góðu og því má ekki gleyma, að aldrei er kleift að leysa nein vandamál hið ytra, því öll vandamál eru innri vandamál.

Ég vil sérstaklega árétta í sambandi við það, sem hér hefur verið rakið, að reiði, hatur og hefndarsigur getur verið bældur og falinn undir viðhorfum eins og ást og aðdáun. Menn bæta sér reiðina upp með því að þurrka hana út úr vitund sinni og með því að útiloka samkeppni. Menn skapa þá nokkra fjarlægð milli sín og samkeppnisaðilans. Þeir njóta velgenginnar með honum eða taka þátt í velgengni hans og frama. Með því að hvetja hann til dáða, bægja þeir hefndarsigri frá.

4.4 LEIÐ TIL YFIRRÁÐA.

Ekki er hægt að skiljast við þetta efni án þess að gefa stutta lýsingu á manngerð, sem er atorkusöm og harðfylgin í metnaði sínum og baráttu fyrir völdum, virðingu og fjármunum. Slíkur maður gerir allajafna ráð fyrir því að aðrir séu eins og hann, fjandsamlegir eða hann játar með engu móti að þeir séu það ekki. Fyrir slíkum manni er lífið barátta allra gegn öllum með fáum undantekningum. Hann er kurteis og verkar heiðarlegur og góður félagi, en er það af hagkvæmnisástæðum að miklu leyti eða frekar mætti nefna það sambland af hagkvæmni og ósviknum tilfinningum. Hann sýnir ekki hræðslu né veikleika, þótt hann sé haldinn slíku ekki síður en aðrir. Markmið hans er að vera sterkur og harður eða að minnsta kosti að sýnast svo. Viðhorf hans er í ætt við kenningu Darvíns um að hinir hæfustu komist af, að hinir sterku tortími hinum veiku. Harðfylgni eiginhagsmuna er hið æðsta lögmál.

Af þessu leiðir að nauðsynlegt verður að ná valdi yfir öðrum og umhverfinu, og aðferðirnar til þess eru margvíslegar. T.d. bein valdbeiting, ráðgjöf eða með því að leggja skyldur á aðra. Hann kýs kannski frekar að stjórna bak við tjöldin. Hann þarf allavega að skara fram úr, ná frama, virðingu eða viðurkenningu í einhverju formi. Þótt hann sækist eftir árangri eða virðingu er það oft aðeins nauðsynlegur liður í að ná völdum. Ytri viðurkenning sýnir styrkleika og yfirburði. Þörf fyrir að nota aðra og leika á þá er hluti af heildarmyndinni. Aðalsjónarmiðið verður, hvað hann getur fengið út úr hlutunum, t.d. peninga, virðingu, sambönd, hugmyndir o. s. frv. Hann heldur að allir aðrir hugsi eins, aðalatriðið sé aðeins að ná meiri árangri en þeir. Hann velur jafnvel maka eftir því, hversu mikla virðingu, völd eða peninga makinn gæti veitt honum. Hann sýnir litla tillitssemi og ætlast til að aðrir sjái um sig sjálfir.

Hann viðurkennir ekki eigin veikleika og hræðslu og gerir allt til að efla síg í baráttunni. Sérstaklega á þetta við um rökræður. Honum er mjög umhugað að sýna, að hann hafi rétt fyrir sér og líður jafnvel best sé hann í aðstöðu til bardaga og hann þolir illa ósigur. Hann á létt með að ásaka aðra og sektarkennd háir honum ekki. Að játa á sig mistök, ef það er ekki algerlega nauðsynlegt, er að hans mati aðeins ófyrirgefanlegur asnaskapur og auglýsing á eigin veikleika. Hann þróar með sér vissa tegund af raunsæi, þ.e. það sem hann álítur raunsæi. Það felst í því að vera aldrei svo einfaldur að láta sér yfirsjást metnað, græðgi eða heimsku annarra eða nokkuð, sem hindrar hann í eigin markmiðum. Þar sem þjóðfélagið stuðlar að þessum sjónarmiðum, er eðlilegt að hann álíti sig raunsæjan. Skipulagsgáfa, framsýni og forspá er mikilvæg í þessu sambandi, því meta verður möguleikana, afl andstæðinganna og hættur á veginum. Af því að hann verður sífellt að fylgja sínum málum eftir til hins ýtrasta, verður hann að þjálfa sig í að vera sterkur, glöggskyggn, skynugur og kænn. Hann þarf að vera duglegur og atorkusamur og þó sérstaklega úrræðagóður.

Gefa mætti ítarlegri lýsingu á því viðhorfi, sem hér er fjallað um. En ekki má gleyma því, að þungamiðjan liggur utan persónunnar sjálfrar, þótt staðfesting sú, sem hún þarf að fá sé breytileg, allt frá aðdáun, til virðingar eða viðurkenningar. Hver sem staðfestingin er, er hún þó allajafna fánýt og einskis virði. Frá eigin sjónarmiði finnst honum hann vera rökréttur. Óbilgirni er í hans augum styrkleiki, tillitsleysi aðeins heiðarleiki og miskunnarlaus gæsla eigin hagsmuna aðeins raunsæi. Hann sér líka allt í kring um sig, að velvilji er oft uppgerð. Hér verð ég að láta staðar numið, en þessi lýsing hefur ákveðinn tilgang, þegar verið er að ræða um metnað.

4.5 Í DRAUMI SÉRHVERS MANNS.

Sú lýsing, sem ég hefi gefið, er ekki lýsing á einni ákveðinni manngerð, heldur lýsing á heildarviðhorfi. Ýmsir, svo sem bæði Jung og Horney, hafa flokkað persónuleika og virðast margir ólíkir rúmast innan þess viðhorfs, sem ég hefi verið að lýsa. Ég er því ekki að lýsa ákveðnum mönnum, heldur heildarviðhorfi, sem er mjög algengt og margir persónuleikar tileinka sér í meira eða minna mæli. Viðhorfið er almennara en menn halda. Tilgangur þessarar lýsingar kemur einnig betur fram í seinni þáttum. Nauðsynlegt er að virða fyrir sér, hvernig metnaðurinn kemur út, þegar hann er óheftur. Hann getur komið frábærlega vel út í þjóðfélaginu. Hinu megum við heldur ekki gleyma, að þessir þættir eru meira og minna blundandi í okkur öllum, þótt þeir komi ekki fram. Lýsingin er því nauðsynleg til að sjá, ekki hvað við erum, heldur hvaða tilhneigingar blunda í okkur. En úr því að við höfum þessar tilhneigingar, því upplifum við þær ekki og af hverju látum við ekki metnað okkar hafa óhefta útrás?

Ákaflega margt kemur til. Við sjáum hin skaðlegu og eyðileggjandi áhrif metnaðarins og samkeppninnar. Við fyllumst kvíða, ef við ætlum að láta þessar tilhneigingar fá óhefta útrás. Ein ástæðan er að við óttumst svar í sömu mynt. Við vitum, að ef við stígum ofan á aðra, þá óska þeir sér heitast að svara með svipuðum hætti. Um lögmál stoltsins verður rætt í næsta þætti. Við vitum einnig undir niðri, að metnaður og frami er fánýtið eitt og einnig oftast þjóðfélagslega skaðlegir. Ekki er þetta þó næg skýring. Margir sjá engan annan tilgang í lífinu og margir hafa komist á “toppinn” með kænsku sinni og útsjónarsemi.

Ég er ekki kominn svo langt í þessum þáttum, að geta lýst þörf okkar fyrir ást, félagsskap, samúð, ástúð og hlýhug, hjálp og annan andlegan stuðning, sem ég hefi ekki á takteinum heildarorð yfir. Þessi þörf er mikil, almenn og rík. Hún á sér ástæður, sem ekkert tóm er til að ræða hér. Þetta viðhorf eða afl í manninum er a.m.k. jafnsterkt metnaðinum. Margir lenda því í baráttu milli tveggja elda, metnaðar og ástar og sá tilfinningalegi árekstur reynist oft óleysanlegur. Menn geta að vísu réttlætt metnað sinn með ýmsu móti. T.d. telja margir sig aðeins réttláta og hlutlæga, er þeir sigra aðra og lítillækka þá. Þeir sem ætla að hafa hag af öðrum, segjast vera í mikilli þörf fyrir hjálp þeirra o. s. frv. En þótt mönnum takist að réttlæta sig með mörgu móti, nær sú hernaðarlist skammt.

Sá kvíði, sem fram kemur vegna samkeppni og óhefts metnaðar, stafar af tvennu: Ótta við árangursleysi og ótta við árangur. Ef við lítum fyrst á ótta við árangursleysi, þá er hann í raun ótti við þá lítillækkun, sem árangursleysi hefur í för með sér. Öll mistök verða þá stórslys. Menn hafa þá ásett sér að ná ákveðnu ytra markmiði, t.d. árangri í skóla og þola ekki þá smán að fá lægri einkunn en þeir ætluðu sér. Stundum heldur viðkomandi, að aðrir muni hlakka yfir óförum hans, ef þeir viti af metnaði hans. Þá óttast hann ekki aðeins lakan árangur, heldur hitt að aðrir verði varir við metnað hans og vilja til að ná árangri og þá miklu vinnu og erfiði, sem hann leggur á sig til að ná honum. Árangursleysi eitt sér væri þá fyrirgefið að hans mati, en hafi hann sýnt áhuga á annað borð, þá sitji fyrir honum óvinir, sem hakki hann í sig og hlægi að honum, ef hann sýnir veikleika, mistök eða árangursleysi.

Niðurstaðan getur því orðið ýmiss konar. Ef viðkomandi óttast aðeins árangursleysi, verður það til þess að hann eykur viðleitni sína til að ná árangri og gerir allt til að forðast mistök. Ef hann á hinn bóginn óttast, að aðrir uppgötvi metnað hans, kemur hið gagnstæða í ljós. Þá þykist hann engan áhuga hafa og gerir ekkert í málinu. Sams konar ótti getur þannig leitt til gagnstæðrar afstöðu. Þar sem þetta er mjög algengt, væri hægt að segja margar sögur af þessum viðhorfum, en tími og rúm leyfa það ekki. Í stuttu máli má segja að mörgum finnst öruggara að forðast það, sem þeim langar til að gera, taka enga áhættu, vera óáberandi og hógværir frekar en að taka þátt í samkeppninni, sýna metnað sinn og hætta á ósigur.

Að óttast árangur hljómar einkennilega og ég var lengi að átta mig á þeim ótta. Við vitum að árgangur skapar öfund og oft fjandskap vegna samkeppninnar, ekki síst milli samkeppnisaðila. Flestir verða aldrei varir við ótta sinn, sem felst í því að vilja ekki styggja vini sína með árangri, en slíkur ótti er ekki óalgengur og oftast svo bældur að hann kemur aðeins fram með óbeint, t.d. í hömlum. Margir tapa leik fyrir slysni, þegar sigurinn er vís, tala í lágum rómi og eru óáberandi, þegar þeir eru að segja mikilvæga hluti og afgerandi og setja sig á lægra andlegt plan til að þóknast viðmælanda o. s. frv. Óttinn við að særa og lítillækka aðra með sigri sínum, býr þá í undirvitundinni og kemur ekki upp á yfirborðið.

Þá er á það að líta, að þótt menn nái árangri, gera þeir lítið úr honum, telja hann heppni o. s. frv. og margir verða í raun fyrir vonbrigðum vegna þess að árangurinn varð ekki eins mikill og til stóð. Ef við viljum vera fremst og fyrst en höfum jafnframt miklar hömlur gagnvart slíkum árangri, þá gerum við sama hlutinn ýmist vel eða illa. Alls konar hömlur myndast og við gerum minna úr okkur en efni standa til. Oft setjum við okkur á lægri stall en aðrir eða sköpum fjarlægð milli okkar og annarra og hlöðum þá hrósi, til að okkar “stóri” hlutur verði ekki of áberandi.

Minnimáttarkenndin er einn mesti skaðvaldur mannkyns, en hún hefur ákveðnu hlutverki að gegna. Með því að gera lítið úr sér í eigin huga og setja sig á lægri stall en aðrir og halda metnaði sínum í skefjum, drögum við úr kvíða, sem metnaðinum og samkeppninni fylgir. Með því að gera lítið úr okkur, drögum við jafnframt úr sjálfstrausti okkar. Sjálfstraust er þó alltaf nauðsynlegt til að ná árangri. Lögmálið er ennfremur einmitt fólgið í því að gera minnst úr þeim hæfileikum, sem við viljum helst hafa eða skara fram úr með. Ef framaþörfin er á ákveðnu sviði gáfna eða hæfileika, er jafnframt minnst gert úr þeim gáfum eða hæfileikum o. s. frv.

Þótt minnimáttarkenndin þurfi þannig ekki að vera vísbending um að við séum minni máttar í raun, er hér mjótt mundangshófið milli ímyndunar og veruleika. Með því að hafa vitund um eigin metnað og sjá að árangur verður aldrei í samræmi við væntingar, vegna þeirra hamla og annarra þátta, sem ég hefi rakið, verður raunin sú að við gerum mistök, a.m.k. gengur okkur ekki eins vel og vera ætti. Munur verður á getu og árangri, sem aftur eykur á minnimáttarkenndina. Draumórar koma í stað árangurs og þeir vaxa í réttu hlutfalli við vöxt minnimáttarkenndar. Munurinn verður sífellt meiri milli draums og veruleik. Upp kemur öfund og reiði út í þá, sem betur vegnar og andlegur vítahringur myndast, sem stöðugt eykur á minnimáttarkenndina. Vonleysi kemur upp og þar með staðfesting eigin smæðar. Hér komum við að einni meginrót hefndarreiðinnar, sem nær alltaf er bæld og magnar flækjuna og vandann. Tilfinning vonleysis, biturleiks og vonbrigða heltekur sálina. Þannig hefur metnaðurinn, sem upphaflega átti að lyfta sálinni og útvíkka persónuleikann orðið til hins gagnstæða. Metnaðurinn breytist að lokum í andhverfu sína.

Ég vil að lokum fara hér með kvæði eftir Stein Steinarr, þar sem hann lýsir þessari þróun í hnotskurn. Kvæðið heitir “Í draumi sérhvers manns”. Það birtist í ljóðabókinni “Ferð án fyrirheits”.

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.
Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg
af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið
á bak við veruleikans köldu ró.

Þinn draumur býr þeim mikla mætti yfir
að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér.
Hann vex á milli þín og þess, sem lifir,
og þó er engum ljóst, hvað milli ber.

Gegn þinni líkamsorku og andans mætti
og öndvert þinni skoðun, reynslu og trú,
í dimmri þögn, með dularfullum hætti
rís draumsins bákn og jafnframt minnkar þú.

Og sjá, þú fellur fyrir draumi þínum
í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.
Hann lykur um þig löngum armi sínum,
og loksins ert þú sjálfur draumur hans.

Steinn Steinar
Fyrri 03 – SKYLDAN
Næsta 05 – STOLTIÐ
Efnisyfirlit