Categories
Hugleiðingar Leifur H. Leifsson

Að breyta heiminum

Margar leiðir eru í boði fyrir þá sem leggja út á hinn andlegu braut, sumir fara sína eigin leið, aðrir fara troðnar slóðir meðan einhverjir segja enga leið vera í boði. Margar stöðvar, straumar og stefnu hafa sprottið upp síðustu áratugi þar sem menn geta fengið leiðbeiningar m.a í hugleiðingu, núvitund og yoga. Nóg er í boði og barist er um bitana á hinu andlega markaðstorgi og oftar en ekki er uppljómun á næsta leiti. Lífspekifélagið hefur boðið upp á leiðbeiningar í hugrækt og andlegri iðkun í áratugi þó það hafi kannski ekki farið hátt. Einnig hefur verið talað um núvitund og yoga þar svo áratugum skiptir. En hvað er yoga? Samkvæmt Patanjali er yoga það að ná algjörum tökum á myndun hugsana og hugmynda í huganum og þegar því er náð þá verður maðurinn var við sjálfan sig eins og hann er. Er þetta leiðarljós flestra þeirra sem leggja stund á yoga nú til dags? Ekki veit ég svarið við því. Núvitund er afar vinsæl um þessar mundir og stundum látið sem svo að þetta sé eitthvert nýtt fyrirbæri þarna á ferðinni en augnablikið var aldrei fundið upp.
Margt er í boði fyrir andlega þyrsta nema og það er hægðarleikur að týna sér á þessu andlega markaðstorgi þar sem framboðið er gífurlegt og alltaf kemur eitthvað „nýtt“ til sögunnar. Við verðum samt helst að finna okkur einhverja iðkun eða iðkunaraðferð sem okkur líkar við og halda okkur við hana því annars getur farið þannig að maður eyðir dýrmætum tíma í „andlegt ráp“. En ávallt verðum við að muna að ein leið er ekkert merkilegri eða betri en önnur, það liggja margar leiðir upp fjallið og það kemur að því að þú finnur þann troðning sem hentar þér. Hjá mörgum, kannski ekki öllum, byrjar ákveðið ferli þegar þeir byrja að hugleiða eða hefja andlega iðkun. Stundum eins og eitthvað vakni, eitthvað sem vekur þig til vitundar um lífið. Eitthvað jafnvel sem vekur upp í þér samkennd og þú finnur til kærleika til alls sem er. Þig langar því til að vera til staðar fyrir aðra, hjálpa öðrum án skilyrða. Búddisminn gengur t.a.m. mikið til út á þetta. Zenmeistari einn var eitt sinn spurður hvernig hann myndi skilgreina búddisma, hann sagði: „Hvernig get ég hjálpað?“ Í mahayana búddismanum er hugmyndina um bodhisattva. Bodhisattvinn heitir því að frelsa allar skynverur og fórnar sér fyrir aðra, frestar m.a. eigin nirvana til þess að geta hjálpað öðrum samkvæmt þessari hugmyndafræði. Hvort eitthvað er til í þessari hugmynd eða ekki þá er þetta afar falleg hugsun og sennilegra væri lífið betra og réttlátara hér á jörðinni ef fleiri myndu tileinka sér eitthvað álíka.
Eins og sagði í byrjun þá eru margar leiðir í boði fyrir þá sem leggja úr í hið andlega ferðalag, en er ferðalagið okkar? Kannski er það ekki „okkar“ þegar öllu er á botninn hvolft. Samhliða iðkun ættum við að láta gott af okkur leiða, þjónusta og hjálpa samferðafólki okkar hvort sem það er í lífi, starfi eða andlegri iðkun þess. Við ættum að starfa, þjónusta og iðka án skilyrða, án þess að vænta einhverra launa eða hróss. Flest okkar vilja sjá betri heim verða til en til þess að breyta heiminum verður þú að byrja á sjálfum þér og þá skipta athafnir okkar máli.

„Sá starfar bezt, sem starfar án eigingjarnra hvata, sem þráir hvorki peninga né neitt annað og þegar maðurinn er fær um þetta, verður hann Búddha og frá honum streymir máttur til þess að starfa svo, að það breyti heiminum.“
(Vivekananda)

Leifur H Leifsson